"...ætlaru kannski að ná þér í 5 háskólagráður?"

Ég er í ansi hreint skemmtilegu námi í háskólanum á Hólum í Hjaltadal, viðburðastjórnun. Þetta er nokkuð lýsandi heiti á náminu en eins merkilegt og það er þá hváir fólk alltaf...  “Ha? Viðburðastjórnun... hvað er nú það?” Nú, fyrir þá sem þurfa nánari skýringar við þá svara ég því til að þetta sé fag sem kennir manni að stjórna viðburðum...  þið vitið... árshátíðir, 17. júní, þemadagar, ráðstefnur, brúðkaup, stórafmæli...  og þá kviknar oftast á perunni:  “Ahhhh... skil.. . þú meinar viðburða - stjórnun...” Og “jamm”.. segi ég.

Í viðburðastjórnuninni, sem er 60 eininga diplómunám, kennir ýmissa grasa og meðal þess sem ég er búin að fara í eru kúrsarnir hátíðir og viðburðir, afþreying ferðafólks, markaðsfræði og stjórnun. Ég tek auðvitað íslensku aðferðina á þetta og þrátt fyrir öll varnaðarorð stunda ég 100% nám samhliða 100% vinnu samhliða því að ala upp þrjú börn, vera með 4 ketti (vantar einhvern kettling?), 2 páfagauka (langar einhvern í páfagauka?), 2 fiskabúr og hund.  En það var nú líka svolítil grunnhugsun hjá mér í upphafi, þar sem ég hef svona gífurlega mikið að gera væri þá ekki þjóðráð að læra að stjórna stærsta viðburðinum í lífi hverrar manneskju: Að stýra heimili og koma börnunum sínum til manns?

Málið er að ég er þó fyrst og fremst að gera þetta fyrir sjálfa mig, rækta sálartetrið eftir nokkurra ára pásu frá námi – pásu sem hefur farið í að ganga með börn, fæða börn, baða börn, bleiuskipti, heimanám, snýtingar, skeiningar, æluþrif, hundakúk, kattahár, andvökunætur, þvottahúsleikfimi, fjáraflanir fyrir fótboltann, fótboltaferðalög, bekkjafulltrúastörf, púsl, perlur og plástra ... og svona mætti lengur telja. Samt sem áður virðist ég fá lítinn skilning svona almennt – utan heimilisins alla vega.

•    Já, já, það er mikið að gera (tékk)
•    Já, ég byrja svona oftast að læra þegar árgerð 2007 og 2008 eru sofnuð (tékk)
•    Jú, það kemur fyrir að ég vaki mikið frameftir við lestur og verkefnaskil (tékk)
•    Jú, það má segja það að börnin fái að horfa ögn meira á sjónvarp en vanalega (tékk)
•    Jú, reyndar...það kemur fyrir að ég fái lítinn svefn (tékk)
•    Jú, ætli það ekki ... örbylgjupizzurnar og 1944  réttirnir hafa verið oftar á boðstólnum nú en áður (tékk)
•    Jú, jú – auðvitað hef ég velt því fyrir mér að dreifa álaginu á 2 ár... en þá er ég líka að dreifa þessu álagi á 2 ár – lengja í ólinni (tékk)
•    Jú, jú – þetta er streituvaldandi í kringum lokaprófin en hefst (tékk)
•    Já, já, ég hef þurft að afþakka stórafmæli, veislur, saumaklúbba, barnaafmæli, matarboð, tónleika og fleira... (tékk)                                                                                                                  •    nei, ég myndi nú ekki beinlínis mæla með að gera þetta svona...(tékk)


..... EN... svona er mitt líf og ég er að gera þetta fyrir sjálfa mig Grin

Samt sem áður held ég áfram að fá spurningar:

Spurning 1: “Voðalega ertu þreytuleg, er mikið að gera?”

- Svar 1: Já, svolítið... ég var að skila af mér verkefni sem ég var sein með og vakti alla nóttina – fékk 70 mínútna dúr... en það hafðist Smile ” Viðbrögð: “Já, þér var nú nær að fara í þetta nám!” (Bíddu við... rétt upp hönd sem var að kvarta?)

Spurning 2: “Unnur mín, ættir þú ekki frekar að vera að hugsa um börnin þín og heimilið en að eltast við þetta nám? Mér líst ekkert á þetta og ég myndi segja að þú ættir að hætta þessu!

- Svar 2: “Já, en...  eftir öll þessi ár þá er ég að gera eitthvað fyrir sjálfa mig???” (Bíddu við... eru börnin mín eingetin? Skerðir það lífsgæði annarra að heimilið mitt er ekki í toppstandi þessa dagana?)

Spurning 3: “Hvernig gengur í náminu?

- Svar 3: Mjög vel takk, þetta er rosagaman ég er að læra heilmikið sem er og á eftir að nýtast mér í einkalífi og starfi en auðvitað svolítið strembið samhliða vinnu og heimili – en rosa gaman og gefur mér mikið.”   Viðbrögð: “Ég skil þig ekki – af hverju ertu eiginlega að þessu, af hverju gerir þú þér þetta?” (Bíddu við... ahh.. nei – tekur því ekki að svara þessu...)

Spurning 4: “Hvað er eiginlega að þér – þú ert alltaf að læra.. er ekki nóg að vera sjúkraliði, lögreglumaður og kennari? – Þarftu alltaf að vera að læra eitthvað nýtt? Ætlaru kannski að ná þér í fimm háskólagráður?”

- Svar 4: “Já, heyrðu góð hugmynd! (Bíddu við... hvenær hefur það þótt löstur að vilja útvíkka sig? Er gamla orðatiltækið Mennt er máttur dottið úr orðabókinni? Í bókunum sem ég er að lesa er það einmitt tímanna tákn að fólk sé tilbúið til að útvíkka sig, stækka sjóndeildarhringinn, vera vel lesið, víðlesið og fordómalaust...)

Sannast sagna er ég orðin svolítið þreytt á glósunum sem ég fæ. Það má þó ekki gleyma þeim sem eru í peppliðinu og slíkt fólk gefur mér mikla hvatningu til að halda áfram. Og ég mun halda mínu striki, svo lengi sem mig langar til að rækta sjálfa mig í gegnum leik, nám eða starf þá mun ég rækta sjálfa mig í gegnum leik, nám eða starf. Það þýðir þó ekki að ég muni ekki rækta fjölskylduna mína, það þýðir þó ekki að ég setji sjálfa mig alltaf í fyrsta sæti, ...  en ef svo færi... hvað er að því að setja sjálfan sig og langanir sínar tímabundið í fyrsta sæti?

Ég velti því stundum fyrir mér hvort að karlmenn sem eru í 100% vinnu samhliða 100% námi samhliða því að eiga 3 börn, 4 kisur, 2 páfagauka, 2 fiskabúr og hund...  fái þessar sömu spurningar... hvað heldur þú?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki gleyma fullri vinnu sem Markaðstjóri Sjávarhallarinnar :P

Haraldur Hrannar Sólmundsson (IP-tala skráð) 19.1.2012 kl. 12:03

2 identicon

Dásamlegt að heyra að fleiri hafi lent í þessu en bara ég. Maður velur sínar ræktunaraðferðir sjálfur, aldrei hef ég heyrt neinn skammast yfir því hvernig maður fari með grasblettinn sinn eða kryddjurtirnar í glugganum. En ætli maður að rækta sálartötrið, mennta sig og gleðja um leið er öðru máli að gegna. Ég held ég skelli mér í viðburðastjórnun... Eins og þú sérð vantar mig enn tvær.

Nanna Gunnarsdóttir, þýðandi

BA í ensku

BA í dönsku

MA í hagnýtri ritstjórn og útgáfu

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 19.1.2012 kl. 12:40

3 identicon

Ég hef fulla trúa á þér vinkona og styð þig fyllilega í þessu, dáist að þér hvað þú ert dugleg  enda ertu líka bestust

Einu var ég samt að velta fyrir mér, hvar er Óli í öllu þessu ??? aldrei er minnst á hann í pistlinum þínum bara öll dýrin og fjöslkylduna ???? heheh nei djók, varð bara aðeins að.............

luv

Sprelly ;) (IP-tala skráð) 23.1.2012 kl. 15:25

4 identicon

Ég hef alltaf sagt það...þú ert Superwoman:) Ég dáist af þér og finnst þú laaaaang duglegust! Hlakka samt til að fá þig tilbaka í vinnuna:)

Elín (IP-tala skráð) 26.1.2012 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband