Lactósandi eins og Ólafur Ragnar...

Það hefur lengi verið markmiðið að koma sér aftur í góða formið eftir meðgöngur og keisarafæðingu yngstu barnanna, sem fædd eru 2007 og 2008, en einhvern veginn hafa þau plön setið á hakanum í nokkur ár. Mér er minnisstætt kvöldið fyrir 3 árum þegar við frumburðurinn, fæddur 1999, sátum saman og horfðum á raunveruleikaþáttinn America´s Top Model með Tyru Banks í fararbroddi. Þá sváfu sú 21 mánaða og sá 2 mánaða værum svefni og loksins kominn tími til að setjast niður eftir dagsins önn. Sem við horfðum á hverja glæsilegu fyrirsætuna á fætur annarri svífa um skjáinn langleggja og fögrum ásýndar segir 9 ára sonur minn: „Mamma, af hverju tekur þú ekki þátt í svona fyrirsætukeppni?“ Ég leit á strákinn og hugsaði með mér hvað þetta væri nú yndislegt barn. Þarna sat ég uppgefin á sál og líkama með ælu á öxlinni og lactósandi eins og Ólafur Ragnar í næturvaktinni, 20 kílóum þyngri en vanalega, sundurskorin eftir 3 keisara og barninu fannst ekkert sjálfsagðra en að ég ætti erindi á sýningarpall fröken Tyru. Ég stundi og svaraði honum til að mamma hans væri nú líklegast ekki nógu sæt til að komast í svona sjónvarpsþátt. Strákurinn leit forviða á mig og svaraði snöggt: „Víst! Jú, mamma – þú ert sko alveg nógu sæt!!“ Aftur leit ég á þennan yndislega dreng minn og hugsaði hvað hann væri mikil guðsgjöf og gleðigjafi, hversu notalegt það er að vera svona æðislegur í augum barnsins síns, hvað ég væri ótrúlega rík og heppin og hvað sambandið okkar væri nú fallegt. En þar sem ég sat í formleysi mínu og ljótu ákvað ég að mjólka nú pínu meira af gullkornum, mér veitti nú ekki af því af heyra meira fallegt og uppbyggilegt frá þeim stutta svo ég svaraði honum að kannski væri mamma sæt en bara ekki nógu horuð til að taka þátt. „Horuð??? “ Barnið horfið undarlega á mig... „mamma, hvað þýðir horuð???“ Og ég svaraði: „... það þýðir að vera mjór og líklegast er mamma ekki alveg nógu mjó eða grönn eða horuð til að taka þátt í America´s Top Model keppninni“ (ekki laust við að einhverrar beiskju gætti í röddinni). Gullmolinn minn varð hugsi í smá stund og ég hlakkaði til að fá enn eitt peppsyrðið af vörum hans. Ég var alveg tilbúin til að heyra eitt augnablik að ég væri bæði grönn og sæt þrátt fyrir allt og ætlaði svoleiðis að njóta þess sem eftir væri kvöldsins en eftir nokkurra umhugsun svaraði barnið: „Aha... ég skil.... en mamma, af hverju tekur þú þá ekki bara þátt í Biggest Loser?“   :-o !!!!!

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband