...markaðssetur aukakílóin til styrktar góðu málefni...

Þá er það frágengið, skráði mig í Biggest loser keppni Sporthússins og fyrsti dagurinn í dag, mælingar, myndataka og allur pakkinn. Get ekki sagt að ég hafi verið spennt yfir myndatökunni en góð vinkona stappaði stálinu í mig og stappaði mér svo í bíkini af sér. Hún lét reyndar ekki þar við sitja heldur sá persónulega til þess að ég guggnaði ekki á lokametrunum og fylgdi mér í mælingarnar! Mér var engrar undankomu auðið en sú veit hvað hún syngur – tók 32 kíló af sér á síðasta ári!  Myndatökunni var reyndar frestað en fyrstu tölur eru komnar í hús. Engum “línu-ritum” verður flaggað að sinni en það er ljóst að það verkefni framundan.

Frumburðurinn, nú á 13. ári, var furðulostinn, ...hélt ég væri að grínast, ...vissi ekki að til væri svona keppni hér á landi. Hann stóð við eldhúsborðið höfðinu hærri en ég og mændi mig frá toppi til táar. Ég velti því fyrir mér hvort hann væri að velta fyrir sér sannleiksgildi yfirlýsingarinnar, hvort verið væri að gefa mér einkunn á hallærisskalanum eða meta vinningslíkur mínar í fitutapskeppni. Loks sagði hann með miklum sannfæringakrafti: “Þú tekur þetta mamma!!!”

Ég veit ekki hvað blikið í augunum þýddi – eða tónninn í röddinni - við erum nefnilega nokkrum ljósárum í þroska frá því um árið þegar við horfðum á America´s Top Model saman. En það er ljóst að sem foreldri verð ég að standa mig. Það er ekki hægt að floppa fyrir framan börnin sín. En fyrst stefnan er tekin á gamla góða formið með tilheyrandi ávinningi fyrir sjálfið mitt væri þá ekki vert að auka svolítið pressuna og leyfa öðrum að njóta þess í leiðinni? Láta gott af sér leiða? Markaðssetja aukakílóin og fá fyrirtæki til að styrkja langveik börn í leiðinni? Sé þetta fyrir mér:

Þriggja barna móðir á fertugsaldri markaðssetur aukakílóin til styrktar góðu málefni

Átakið hefst 9. janúar og lýkur 7. apríl
Mælingar fara fram í Sporthúsinu
Fyrirtækjum boðið að greiða 1000 kr fyrir hvert kíló sem hún missir
Umhyggja, styrktarfélag langveikra barna nýtur góðs af

Ertu með?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband