... þá blasti hlandblautur raunveruleikinn við mér...

Ellefti dagurinn án sykurs (svoleiðis, ein og ein hálstafla frá gamlárskveldi) og ótrúlegt að sælkerinn ég sé kominn á þann stað. Hef ekki talið tyggjópakkana þó en merkilegt hvað tyggjó og kaffi geta svalað sykurþörfinni – mæli með því. Næsta mál er að klippa út hveiti og ger algjörlega... er með gerbólur á aftanverðum upphandleggjunum. Aldrei heyrt talað um þær fyrr og aldrei tekið eftir þeim sjálf en þetta eru agnarlitlar hvítar bólur saman í þyrpingu sem er eitt af einkennum geróþols eða glútenóþols að sögn Gemmu Magnússon sem sá um mælingarnar í Sporthúsinu. Svo bless franskar, bjór (ekki það að ég sakni hans), pasta, pitsa, brauð og allt hitt. Ég ætlaði nú svo sem ekki að gúffa þessu í mig næstu vikurnar en ef sterkasta kona Bretlands segir þér að þú sért með gerbólur og þurfir að taka hluti út þá ertu ekkert að rökræða það neitt frekar – þú ert með gerbólur og tekur þessa hluti út!

Skrifandi um bólur -  ég fékk að kynnast þeim ágætlega sem unglingur. Ekkert sem í sjálfu sér hafði nein gífurleg áhrif á sálarlíf mitt en móðir mín elskuleg var þó alltaf að peppa mig upp líkt og henni finndist hún þyrfti að gera tilvist mína bærilegri. Svo var hún líka að lesa sér til um hitt og þetta og benda mér á ýmis húsráð. Það var ekki fyrr en í einni peppræðunni þar sem verið var að tala um bólur og að allir fengju bólur og meira að segja hún væri með smá bólur eftir öll þessi ár. Svo sýndi hún mér einhverjar bólur sem hún var með og sagðist vera búin að vera með í 30 ár!!  Þrjátíu ár!!!  Þó ég væri nú ekkert sérlega viðkvæm fyrir þessu ástandi þá fannst mér það dauðadómi líkast að eiga kannski eftir að vera með þessar bólur í 30 ár! Ég gat sætt mig við nokkur gelgjuár en ekki að burðast með þær til dauðdags svo ég þakkaði móður minni pent fyrir uppörvunina og fór að spá hvort og hvernig ég gæti losnað við bólurnar fyrr.

Gleymi því ekki þegar ég byrjaði að smyrja baneitruðu dóti í andlitið á mér, Acnomel hét það eða eitthvað álíka, mátti alls ekki berast í augu eða munn og ég varð að þvo mér rosalega vel á eftir. Ég kunni ekki að fara með kremið betur en svo að áður en heimilislæknirinn náði að gera það upptækt var ég búin að brenna þrjú ystu lög húðarinnar! Ég ber þess enn merki þegar mér verður mjög kalt – eða heitt. Því næst man ég vel eftir mér berri að ofan að láta austfjarðarsólina sleikja bæði axlir og bak þar sem þessar bólututlur voru farnar að læðast um – endaði svo með þykkan jógúrtsmurning og lá svefnlausa nótt á maganum í stofusófanum hjá ömmu á Neskaupstað (þar sem ég dvaldi öll sumur að vinna í fiski) með 1. og 2. stigs bruna á stóru svæði. Og kláðinn sem fylgdi í kjölfarið...!! Sársaukafyllstu mistökin gerði ég þó líklegast þegar ég réði mig sem barnfóstru í 3 vikur – hjá snyrtifræðingi!!! Ég fékk óumbeðna húðhreinsun í kaupbæti við hver dagslok og við tók sársaukafullur tími í stólnum hennar þar sem nabbar og fílapenslar af öllum stærðum og gerðum voru reknir út með valdi – milli þess sem hún rak mig út í sólbað þegar vel viðraði :-0 !!!

Og svo prófaði ég gúrkusneiðameðferð, þessa týpísku þar sem ég lá í saltfiskgallanum í hádegishléinu á forstofugólfinu hjá ömmu með gúrkuslæðu yfir andlitinu, ... og svo prófaði ég andlitsgufuna með soðið vatn í kartöflupotti og handklæði yfir... svoleiðis að sviðna af mér öll andlitshár. Sumarið sem ég var 16 ára hringdi móðir mín elskuleg austur til okkar einu sinni sem oftar, hafði verið að lesa grein einu sinni sem oftar - og nú um vatn. “Unnur María mín, ég var að lesa hérna grein um vatn og hvað það er nú frábært fyrir húðina, bara að drekka nógu mikið vatn eða 8 glös á dag! Það hreinsar nýrun sem hreinsa blóðið sem hreinsar húðina og bólurnar fara...”  Og ég fór að drekka vatn samviskusamlega ofan á allt annað því mamma sagði það.. og ég drakk... og ég pissaði... og ég drakk... og ég pissaði... og það gekk bara nokkuð vel að koma þessum 8 glösum inn í daglega rútínu.  

Nokkrum dögum síðar fór ég með vinkonunum fyrir austan á unglingaball og rosa gaman, fékk meira að segja að gista heima hjá vinkonu minni fyrir austan og tilveran var dásamleg. Eftir þrusudanstakta á gólfinu undir dynjandi tónlist SúEllen lá leiðin heim til hennar. Vinkona mín átti svefnsófa sem hægt var að taka út og þar komum við okkur fyrir og hlustuðum á Kate Bush. Sem við spjölluðum um heima og geima að ungmeyja sið fattaði ég að ég hefði gleymt að  drekka kvöldskammtinn minn – 3 glös! Samviskan bauð ekki upp á annað en að pukrast fram í eldhús og fá sér vatn, það var ekkert tekið með í reikninginn að einhverjum millilitrum af vökva hafði verið sturtað niður á ballinu. Mamma sagði 8 glös og 8 glös skal það vera. Að svo búnu var mín kvitt við allt og alla, og tilbúin í háttinn.  

Vinkona mín átti heima í gömlu timburhúsi á 2 hæðum, herbergið hennar var inn af forstofunni og því aðeins frá öðrum svefnherbergjum hússins. Ég man að ég vaknaði milli kl. 4 og 5 um nóttina í þvílíkum hlandspreng að mig verkjaði. Ég var þreytt eftir geimið en reif mig loksins upp úr svefnsófanum þar sem vinkona mín lá sofandi, staulaðist fram í forstofu og þaðan inn í húsið, framhjá tröppunum sem lágu upp á efri hæðina og inn á salernið. Ég var vægast sagt orðin tæp á því þegar ég bakkaði niður á setuna og lét allt gossa. Ahhhh... þvílíkt magn – ætlaði aldrei að linna. En, þetta var eitthvað skrýtið... mér hlýnaði hressilega um allan kroppinn um leið og hlandverkurinn sveif úr honum. Loks vaknaði ég... aftur! Og þá blasti hlandblautur raunveruleikinn við mér! Sumir klípa sig til að kanna ástandið en fyrir mig var nóg að setja aðra höndina undir sæng og þreifa. Mig hafði dreymt klósettferðina og migið undir mig og vinkona mína!!

Mig langaði til að deyja og það var sama hvernig ég leit á málið ég komst ekki hjá því að vekja vinkonu mína með óþægileg tíðindi. Ég potaði laust í hana og hvíslaði nafnið hennar en hún haggaðist ekki. Ég ýtti aftur í hana og aðeins fastar en ekkert gerðist. Ég kíkti undir sængina og sá mér til skelfingar að vinkona mín hafði ekki sloppið neitt betur en ég frá þessu slysi og virtist bara fara nokkuð vel um hana þarna í hlýjum pollinum. Loks áræddi ég að ávarpa hana hálfvælandi: “Sigga, Sigga mín...  vaknaðu.... ég er búin að pissa undir okkur...”  Ég hafði ekki fyrr sleppt síðasta orðinu en hún hentist upp með það sama líkt og stungin væri... “Hva.. ha?” Og ég reyndi að útskýra fyrir henni hvað gerst hafði með 600 atkvæðum á mínútu... “Já, ég bara .. þetta var draumur... ég meina... ég sat á klósettinu... og svo vaknaði ég aftur... ég meina ég man þegar ég opnaði báðar hurðarnar og settist svo á klósettið og svo bara... og svo bara... og labbaði fram hjá stiganum og allt... en svo vaknaði ég aftur og ... og þá var ég ... hérna... búin að pissa í rúmið ... undir... okkur... báðar.”  

Sigga vinkona horfið á mig og rúmið sitt til skiptis en sagði ekki neitt. Það var nokkuð óþægilegt móment en eftir smá stund stökk hún á fætur og hóf að rífa sig úr fötunum og skipaði mér að gera slíkt hið sama. Sjálf sat ég bara í pollinum sem lömuð væri. Áður en ég vissi af vorum við þó báðar komnar úr fötunum, í önnur náttföt af henni og búið að skipta á rúminu. Sigga hafði farið hamförum við að redda málinu og á meðan ég stóð eins og illa gerður hlutur og horfði á – langaði bara til að deyja, ég var 16 ára og nýbúin að míga undir vinkonu mína – blóm og kransar afþakkaðir. Ég rankaði við mér á leið með allt blauta dótið inn í þvottahús... Sigga ætlaði að setja í vél og redda þessu í hvelli. Hún skutlaði öllu inn, dufti á eftir og ræsti græjuna. Það skyldi sko enginn komast að þessu, um morguninn ætlaði hún svo að hengja þetta upp áður en fólkið vaknaði og málið dautt. Mikið var ég sátt við viðbrögð vinkonu minnar – man ég dáðist líka að því að hún væri svona klár. Ekki nóg með að ég hefði komist upp með að míga sí svona undir hana heldur fór hún strax í aðgerðargírinn að bjarga málum svo vinkona hennar gæti haldið andlitinu og sjálfsvirðingunni. Lítið vissum við þá að með þessu brölti í þvottahúsinu, í timburhúsinu, vöktum við auðvitað foreldra hennar svo seinna þurfti Sigga að gera grein fyrir uppátækinu í þvottahúsinu hverju svo sem hún svaraði til.

Þar sem við lágum á bakinu hlið við hlið, ofan á stöflum af handklæðum, gátum ekki sofnað og ræddum um atvik næturinnar sór Sigga og strengdi þess heit að segja aldrei, aldrei, neinum frá þessu. Ég man að þar sem við lágum þarna langaði mig ennþá til að deyja...  þetta var eitthvað svo hræðilega neyðarlegt og ömurlega svakalega vandræðalegt...  eitthvað sem enginn á að þurfa að upplifa 16 ára. Eftir smá meira tal og skraf um allt og ekki neitt sagði ég: “Sigga... veistu... þú veist ekki hvað mér þykir þetta rosalega leiðinlegt...ég bara veit ekki hvernig ég að að segja... ég meina.. mig langaði til að deyja!”. Sigga vinkona sneri sér við, leit djúpt í augu mín og inn í sál auðmýktrar vinkonu, og sagði loks upphreystandi: “Iss, góða hafðu ekki áhyggjur af þessu – vertu bara fegin að þú þurftir ekki að kúka!”

--------------------

Það er skemmst frá því að segja að Sigga vinkona hefur aldrei að mér vitandi sagt frá þessu. Hins vegar finnst mér þetta svo óborganlega fyndið á seinni árum að ég hef minnst þessarar uppákomu í góðra vina hópi. Svo fyndið að ég væri jafnvel vís til að blogga um þetta einhvern daginn.

Boðskapur kvöldsins: Litlar hvítar bólur á aftanverðum upphandleggjum eru vísbendingar um geróþol og ...  sama hversu hollt vatnið er – allt er best í hófi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hahahahaha aldrei heyrt þetta áður,,góð saga :)

litli bróðir (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband