28.5.2012 | 14:42
ABBA - tilbúnir :-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2012 | 10:52
"...ætlaru kannski að ná þér í 5 háskólagráður?"
Ég er í ansi hreint skemmtilegu námi í háskólanum á Hólum í Hjaltadal, viðburðastjórnun. Þetta er nokkuð lýsandi heiti á náminu en eins merkilegt og það er þá hváir fólk alltaf... Ha? Viðburðastjórnun... hvað er nú það? Nú, fyrir þá sem þurfa nánari skýringar við þá svara ég því til að þetta sé fag sem kennir manni að stjórna viðburðum... þið vitið... árshátíðir, 17. júní, þemadagar, ráðstefnur, brúðkaup, stórafmæli... og þá kviknar oftast á perunni: Ahhhh... skil.. . þú meinar viðburða - stjórnun... Og jamm.. segi ég.
Í viðburðastjórnuninni, sem er 60 eininga diplómunám, kennir ýmissa grasa og meðal þess sem ég er búin að fara í eru kúrsarnir hátíðir og viðburðir, afþreying ferðafólks, markaðsfræði og stjórnun. Ég tek auðvitað íslensku aðferðina á þetta og þrátt fyrir öll varnaðarorð stunda ég 100% nám samhliða 100% vinnu samhliða því að ala upp þrjú börn, vera með 4 ketti (vantar einhvern kettling?), 2 páfagauka (langar einhvern í páfagauka?), 2 fiskabúr og hund. En það var nú líka svolítil grunnhugsun hjá mér í upphafi, þar sem ég hef svona gífurlega mikið að gera væri þá ekki þjóðráð að læra að stjórna stærsta viðburðinum í lífi hverrar manneskju: Að stýra heimili og koma börnunum sínum til manns?
Málið er að ég er þó fyrst og fremst að gera þetta fyrir sjálfa mig, rækta sálartetrið eftir nokkurra ára pásu frá námi pásu sem hefur farið í að ganga með börn, fæða börn, baða börn, bleiuskipti, heimanám, snýtingar, skeiningar, æluþrif, hundakúk, kattahár, andvökunætur, þvottahúsleikfimi, fjáraflanir fyrir fótboltann, fótboltaferðalög, bekkjafulltrúastörf, púsl, perlur og plástra ... og svona mætti lengur telja. Samt sem áður virðist ég fá lítinn skilning svona almennt utan heimilisins alla vega.
Já, já, það er mikið að gera (tékk)
Já, ég byrja svona oftast að læra þegar árgerð 2007 og 2008 eru sofnuð (tékk)
Jú, það kemur fyrir að ég vaki mikið frameftir við lestur og verkefnaskil (tékk)
Jú, það má segja það að börnin fái að horfa ögn meira á sjónvarp en vanalega (tékk)
Jú, reyndar...það kemur fyrir að ég fái lítinn svefn (tékk)
Jú, ætli það ekki ... örbylgjupizzurnar og 1944 réttirnir hafa verið oftar á boðstólnum nú en áður (tékk)
Jú, jú auðvitað hef ég velt því fyrir mér að dreifa álaginu á 2 ár... en þá er ég líka að dreifa þessu álagi á 2 ár lengja í ólinni (tékk)
Jú, jú þetta er streituvaldandi í kringum lokaprófin en hefst (tékk)
Já, já, ég hef þurft að afþakka stórafmæli, veislur, saumaklúbba, barnaafmæli, matarboð, tónleika og fleira... (tékk) nei, ég myndi nú ekki beinlínis mæla með að gera þetta svona...(tékk)
..... EN... svona er mitt líf og ég er að gera þetta fyrir sjálfa mig
Samt sem áður held ég áfram að fá spurningar:
Spurning 1: Voðalega ertu þreytuleg, er mikið að gera?
- Svar 1: Já, svolítið... ég var að skila af mér verkefni sem ég var sein með og vakti alla nóttina fékk 70 mínútna dúr... en það hafðist Viðbrögð: Já, þér var nú nær að fara í þetta nám! (Bíddu við... rétt upp hönd sem var að kvarta?)
Spurning 2: Unnur mín, ættir þú ekki frekar að vera að hugsa um börnin þín og heimilið en að eltast við þetta nám? Mér líst ekkert á þetta og ég myndi segja að þú ættir að hætta þessu!
- Svar 2: Já, en... eftir öll þessi ár þá er ég að gera eitthvað fyrir sjálfa mig??? (Bíddu við... eru börnin mín eingetin? Skerðir það lífsgæði annarra að heimilið mitt er ekki í toppstandi þessa dagana?)
Spurning 3: Hvernig gengur í náminu?
- Svar 3: Mjög vel takk, þetta er rosagaman ég er að læra heilmikið sem er og á eftir að nýtast mér í einkalífi og starfi en auðvitað svolítið strembið samhliða vinnu og heimili en rosa gaman og gefur mér mikið. Viðbrögð: Ég skil þig ekki af hverju ertu eiginlega að þessu, af hverju gerir þú þér þetta? (Bíddu við... ahh.. nei tekur því ekki að svara þessu...)
Spurning 4: Hvað er eiginlega að þér þú ert alltaf að læra.. er ekki nóg að vera sjúkraliði, lögreglumaður og kennari? Þarftu alltaf að vera að læra eitthvað nýtt? Ætlaru kannski að ná þér í fimm háskólagráður?
- Svar 4: Já, heyrðu góð hugmynd! (Bíddu við... hvenær hefur það þótt löstur að vilja útvíkka sig? Er gamla orðatiltækið Mennt er máttur dottið úr orðabókinni? Í bókunum sem ég er að lesa er það einmitt tímanna tákn að fólk sé tilbúið til að útvíkka sig, stækka sjóndeildarhringinn, vera vel lesið, víðlesið og fordómalaust...)
Sannast sagna er ég orðin svolítið þreytt á glósunum sem ég fæ. Það má þó ekki gleyma þeim sem eru í peppliðinu og slíkt fólk gefur mér mikla hvatningu til að halda áfram. Og ég mun halda mínu striki, svo lengi sem mig langar til að rækta sjálfa mig í gegnum leik, nám eða starf þá mun ég rækta sjálfa mig í gegnum leik, nám eða starf. Það þýðir þó ekki að ég muni ekki rækta fjölskylduna mína, það þýðir þó ekki að ég setji sjálfa mig alltaf í fyrsta sæti, ... en ef svo færi... hvað er að því að setja sjálfan sig og langanir sínar tímabundið í fyrsta sæti?
Ég velti því stundum fyrir mér hvort að karlmenn sem eru í 100% vinnu samhliða 100% námi samhliða því að eiga 3 börn, 4 kisur, 2 páfagauka, 2 fiskabúr og hund... fái þessar sömu spurningar... hvað heldur þú?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.1.2012 | 00:58
... þá blasti hlandblautur raunveruleikinn við mér...
Skrifandi um bólur - ég fékk að kynnast þeim ágætlega sem unglingur. Ekkert sem í sjálfu sér hafði nein gífurleg áhrif á sálarlíf mitt en móðir mín elskuleg var þó alltaf að peppa mig upp líkt og henni finndist hún þyrfti að gera tilvist mína bærilegri. Svo var hún líka að lesa sér til um hitt og þetta og benda mér á ýmis húsráð. Það var ekki fyrr en í einni peppræðunni þar sem verið var að tala um bólur og að allir fengju bólur og meira að segja hún væri með smá bólur eftir öll þessi ár. Svo sýndi hún mér einhverjar bólur sem hún var með og sagðist vera búin að vera með í 30 ár!! Þrjátíu ár!!! Þó ég væri nú ekkert sérlega viðkvæm fyrir þessu ástandi þá fannst mér það dauðadómi líkast að eiga kannski eftir að vera með þessar bólur í 30 ár! Ég gat sætt mig við nokkur gelgjuár en ekki að burðast með þær til dauðdags svo ég þakkaði móður minni pent fyrir uppörvunina og fór að spá hvort og hvernig ég gæti losnað við bólurnar fyrr.
Gleymi því ekki þegar ég byrjaði að smyrja baneitruðu dóti í andlitið á mér, Acnomel hét það eða eitthvað álíka, mátti alls ekki berast í augu eða munn og ég varð að þvo mér rosalega vel á eftir. Ég kunni ekki að fara með kremið betur en svo að áður en heimilislæknirinn náði að gera það upptækt var ég búin að brenna þrjú ystu lög húðarinnar! Ég ber þess enn merki þegar mér verður mjög kalt eða heitt. Því næst man ég vel eftir mér berri að ofan að láta austfjarðarsólina sleikja bæði axlir og bak þar sem þessar bólututlur voru farnar að læðast um endaði svo með þykkan jógúrtsmurning og lá svefnlausa nótt á maganum í stofusófanum hjá ömmu á Neskaupstað (þar sem ég dvaldi öll sumur að vinna í fiski) með 1. og 2. stigs bruna á stóru svæði. Og kláðinn sem fylgdi í kjölfarið...!! Sársaukafyllstu mistökin gerði ég þó líklegast þegar ég réði mig sem barnfóstru í 3 vikur hjá snyrtifræðingi!!! Ég fékk óumbeðna húðhreinsun í kaupbæti við hver dagslok og við tók sársaukafullur tími í stólnum hennar þar sem nabbar og fílapenslar af öllum stærðum og gerðum voru reknir út með valdi milli þess sem hún rak mig út í sólbað þegar vel viðraði :-0 !!!
Og svo prófaði ég gúrkusneiðameðferð, þessa týpísku þar sem ég lá í saltfiskgallanum í hádegishléinu á forstofugólfinu hjá ömmu með gúrkuslæðu yfir andlitinu, ... og svo prófaði ég andlitsgufuna með soðið vatn í kartöflupotti og handklæði yfir... svoleiðis að sviðna af mér öll andlitshár. Sumarið sem ég var 16 ára hringdi móðir mín elskuleg austur til okkar einu sinni sem oftar, hafði verið að lesa grein einu sinni sem oftar - og nú um vatn. Unnur María mín, ég var að lesa hérna grein um vatn og hvað það er nú frábært fyrir húðina, bara að drekka nógu mikið vatn eða 8 glös á dag! Það hreinsar nýrun sem hreinsa blóðið sem hreinsar húðina og bólurnar fara... Og ég fór að drekka vatn samviskusamlega ofan á allt annað því mamma sagði það.. og ég drakk... og ég pissaði... og ég drakk... og ég pissaði... og það gekk bara nokkuð vel að koma þessum 8 glösum inn í daglega rútínu.
Nokkrum dögum síðar fór ég með vinkonunum fyrir austan á unglingaball og rosa gaman, fékk meira að segja að gista heima hjá vinkonu minni fyrir austan og tilveran var dásamleg. Eftir þrusudanstakta á gólfinu undir dynjandi tónlist SúEllen lá leiðin heim til hennar. Vinkona mín átti svefnsófa sem hægt var að taka út og þar komum við okkur fyrir og hlustuðum á Kate Bush. Sem við spjölluðum um heima og geima að ungmeyja sið fattaði ég að ég hefði gleymt að drekka kvöldskammtinn minn 3 glös! Samviskan bauð ekki upp á annað en að pukrast fram í eldhús og fá sér vatn, það var ekkert tekið með í reikninginn að einhverjum millilitrum af vökva hafði verið sturtað niður á ballinu. Mamma sagði 8 glös og 8 glös skal það vera. Að svo búnu var mín kvitt við allt og alla, og tilbúin í háttinn.
Vinkona mín átti heima í gömlu timburhúsi á 2 hæðum, herbergið hennar var inn af forstofunni og því aðeins frá öðrum svefnherbergjum hússins. Ég man að ég vaknaði milli kl. 4 og 5 um nóttina í þvílíkum hlandspreng að mig verkjaði. Ég var þreytt eftir geimið en reif mig loksins upp úr svefnsófanum þar sem vinkona mín lá sofandi, staulaðist fram í forstofu og þaðan inn í húsið, framhjá tröppunum sem lágu upp á efri hæðina og inn á salernið. Ég var vægast sagt orðin tæp á því þegar ég bakkaði niður á setuna og lét allt gossa. Ahhhh... þvílíkt magn ætlaði aldrei að linna. En, þetta var eitthvað skrýtið... mér hlýnaði hressilega um allan kroppinn um leið og hlandverkurinn sveif úr honum. Loks vaknaði ég... aftur! Og þá blasti hlandblautur raunveruleikinn við mér! Sumir klípa sig til að kanna ástandið en fyrir mig var nóg að setja aðra höndina undir sæng og þreifa. Mig hafði dreymt klósettferðina og migið undir mig og vinkona mína!!
Mig langaði til að deyja og það var sama hvernig ég leit á málið ég komst ekki hjá því að vekja vinkonu mína með óþægileg tíðindi. Ég potaði laust í hana og hvíslaði nafnið hennar en hún haggaðist ekki. Ég ýtti aftur í hana og aðeins fastar en ekkert gerðist. Ég kíkti undir sængina og sá mér til skelfingar að vinkona mín hafði ekki sloppið neitt betur en ég frá þessu slysi og virtist bara fara nokkuð vel um hana þarna í hlýjum pollinum. Loks áræddi ég að ávarpa hana hálfvælandi: Sigga, Sigga mín... vaknaðu.... ég er búin að pissa undir okkur... Ég hafði ekki fyrr sleppt síðasta orðinu en hún hentist upp með það sama líkt og stungin væri... Hva.. ha? Og ég reyndi að útskýra fyrir henni hvað gerst hafði með 600 atkvæðum á mínútu... Já, ég bara .. þetta var draumur... ég meina... ég sat á klósettinu... og svo vaknaði ég aftur... ég meina ég man þegar ég opnaði báðar hurðarnar og settist svo á klósettið og svo bara... og svo bara... og labbaði fram hjá stiganum og allt... en svo vaknaði ég aftur og ... og þá var ég ... hérna... búin að pissa í rúmið ... undir... okkur... báðar.
Sigga vinkona horfið á mig og rúmið sitt til skiptis en sagði ekki neitt. Það var nokkuð óþægilegt móment en eftir smá stund stökk hún á fætur og hóf að rífa sig úr fötunum og skipaði mér að gera slíkt hið sama. Sjálf sat ég bara í pollinum sem lömuð væri. Áður en ég vissi af vorum við þó báðar komnar úr fötunum, í önnur náttföt af henni og búið að skipta á rúminu. Sigga hafði farið hamförum við að redda málinu og á meðan ég stóð eins og illa gerður hlutur og horfði á langaði bara til að deyja, ég var 16 ára og nýbúin að míga undir vinkonu mína blóm og kransar afþakkaðir. Ég rankaði við mér á leið með allt blauta dótið inn í þvottahús... Sigga ætlaði að setja í vél og redda þessu í hvelli. Hún skutlaði öllu inn, dufti á eftir og ræsti græjuna. Það skyldi sko enginn komast að þessu, um morguninn ætlaði hún svo að hengja þetta upp áður en fólkið vaknaði og málið dautt. Mikið var ég sátt við viðbrögð vinkonu minnar man ég dáðist líka að því að hún væri svona klár. Ekki nóg með að ég hefði komist upp með að míga sí svona undir hana heldur fór hún strax í aðgerðargírinn að bjarga málum svo vinkona hennar gæti haldið andlitinu og sjálfsvirðingunni. Lítið vissum við þá að með þessu brölti í þvottahúsinu, í timburhúsinu, vöktum við auðvitað foreldra hennar svo seinna þurfti Sigga að gera grein fyrir uppátækinu í þvottahúsinu hverju svo sem hún svaraði til.
Þar sem við lágum á bakinu hlið við hlið, ofan á stöflum af handklæðum, gátum ekki sofnað og ræddum um atvik næturinnar sór Sigga og strengdi þess heit að segja aldrei, aldrei, neinum frá þessu. Ég man að þar sem við lágum þarna langaði mig ennþá til að deyja... þetta var eitthvað svo hræðilega neyðarlegt og ömurlega svakalega vandræðalegt... eitthvað sem enginn á að þurfa að upplifa 16 ára. Eftir smá meira tal og skraf um allt og ekki neitt sagði ég: Sigga... veistu... þú veist ekki hvað mér þykir þetta rosalega leiðinlegt...ég bara veit ekki hvernig ég að að segja... ég meina.. mig langaði til að deyja!. Sigga vinkona sneri sér við, leit djúpt í augu mín og inn í sál auðmýktrar vinkonu, og sagði loks upphreystandi: Iss, góða hafðu ekki áhyggjur af þessu vertu bara fegin að þú þurftir ekki að kúka!
Það er skemmst frá því að segja að Sigga vinkona hefur aldrei að mér vitandi sagt frá þessu. Hins vegar finnst mér þetta svo óborganlega fyndið á seinni árum að ég hef minnst þessarar uppákomu í góðra vina hópi. Svo fyndið að ég væri jafnvel vís til að blogga um þetta einhvern daginn.
Boðskapur kvöldsins: Litlar hvítar bólur á aftanverðum upphandleggjum eru vísbendingar um geróþol og ... sama hversu hollt vatnið er allt er best í hófi.
Bloggar | Breytt 14.1.2012 kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.1.2012 | 00:56
...markaðssetur aukakílóin til styrktar góðu málefni...
Frumburðurinn, nú á 13. ári, var furðulostinn, ...hélt ég væri að grínast, ...vissi ekki að til væri svona keppni hér á landi. Hann stóð við eldhúsborðið höfðinu hærri en ég og mændi mig frá toppi til táar. Ég velti því fyrir mér hvort hann væri að velta fyrir sér sannleiksgildi yfirlýsingarinnar, hvort verið væri að gefa mér einkunn á hallærisskalanum eða meta vinningslíkur mínar í fitutapskeppni. Loks sagði hann með miklum sannfæringakrafti: Þú tekur þetta mamma!!!
Ég veit ekki hvað blikið í augunum þýddi eða tónninn í röddinni - við erum nefnilega nokkrum ljósárum í þroska frá því um árið þegar við horfðum á America´s Top Model saman. En það er ljóst að sem foreldri verð ég að standa mig. Það er ekki hægt að floppa fyrir framan börnin sín. En fyrst stefnan er tekin á gamla góða formið með tilheyrandi ávinningi fyrir sjálfið mitt væri þá ekki vert að auka svolítið pressuna og leyfa öðrum að njóta þess í leiðinni? Láta gott af sér leiða? Markaðssetja aukakílóin og fá fyrirtæki til að styrkja langveik börn í leiðinni? Sé þetta fyrir mér:
Átakið hefst 9. janúar og lýkur 7. apríl
Mælingar fara fram í Sporthúsinu
Fyrirtækjum boðið að greiða 1000 kr fyrir hvert kíló sem hún missir
Umhyggja, styrktarfélag langveikra barna nýtur góðs af
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2012 | 19:03
Lactósandi eins og Ólafur Ragnar...
Það hefur lengi verið markmiðið að koma sér aftur í góða formið eftir meðgöngur og keisarafæðingu yngstu barnanna, sem fædd eru 2007 og 2008, en einhvern veginn hafa þau plön setið á hakanum í nokkur ár. Mér er minnisstætt kvöldið fyrir 3 árum þegar við frumburðurinn, fæddur 1999, sátum saman og horfðum á raunveruleikaþáttinn America´s Top Model með Tyru Banks í fararbroddi. Þá sváfu sú 21 mánaða og sá 2 mánaða værum svefni og loksins kominn tími til að setjast niður eftir dagsins önn. Sem við horfðum á hverja glæsilegu fyrirsætuna á fætur annarri svífa um skjáinn langleggja og fögrum ásýndar segir 9 ára sonur minn: Mamma, af hverju tekur þú ekki þátt í svona fyrirsætukeppni? Ég leit á strákinn og hugsaði með mér hvað þetta væri nú yndislegt barn. Þarna sat ég uppgefin á sál og líkama með ælu á öxlinni og lactósandi eins og Ólafur Ragnar í næturvaktinni, 20 kílóum þyngri en vanalega, sundurskorin eftir 3 keisara og barninu fannst ekkert sjálfsagðra en að ég ætti erindi á sýningarpall fröken Tyru. Ég stundi og svaraði honum til að mamma hans væri nú líklegast ekki nógu sæt til að komast í svona sjónvarpsþátt. Strákurinn leit forviða á mig og svaraði snöggt: Víst! Jú, mamma þú ert sko alveg nógu sæt!! Aftur leit ég á þennan yndislega dreng minn og hugsaði hvað hann væri mikil guðsgjöf og gleðigjafi, hversu notalegt það er að vera svona æðislegur í augum barnsins síns, hvað ég væri ótrúlega rík og heppin og hvað sambandið okkar væri nú fallegt. En þar sem ég sat í formleysi mínu og ljótu ákvað ég að mjólka nú pínu meira af gullkornum, mér veitti nú ekki af því af heyra meira fallegt og uppbyggilegt frá þeim stutta svo ég svaraði honum að kannski væri mamma sæt en bara ekki nógu horuð til að taka þátt. Horuð??? Barnið horfið undarlega á mig... mamma, hvað þýðir horuð??? Og ég svaraði: ... það þýðir að vera mjór og líklegast er mamma ekki alveg nógu mjó eða grönn eða horuð til að taka þátt í America´s Top Model keppninni (ekki laust við að einhverrar beiskju gætti í röddinni). Gullmolinn minn varð hugsi í smá stund og ég hlakkaði til að fá enn eitt peppsyrðið af vörum hans. Ég var alveg tilbúin til að heyra eitt augnablik að ég væri bæði grönn og sæt þrátt fyrir allt og ætlaði svoleiðis að njóta þess sem eftir væri kvöldsins en eftir nokkurra umhugsun svaraði barnið: Aha... ég skil.... en mamma, af hverju tekur þú þá ekki bara þátt í Biggest Loser? :-o !!!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)